Þann 22. júlí 1980 var fyrsta skóflustungan að byggingu nýs leikskóla á staðnum tekin en það var ekki fyrr en árið 1982 sem hafist var handa af krafti við að byggja nýtt húsnæði fyrir leikskólann við Fjarðarveg 5a. Mánudaginn 10. október 1983 hófst starfsemi í nýja leikskólanum. Á foreldrafundi þann 17. október ákvað stjórn foreldrafélagsins ásamt starfsfólki að halda upp á opnun leikskólans og leyfa foreldrum og börnum að vera með í að velja honum nafn. Settar voru fram nokkrar hugmyndir og síðan fengu foreldrar og börn að greiða atkvæði um hvaða nafn þeim fannst henta best. Nafnið Barnaból fékk langflest atkvæði eða 21 af 38 greiddum og því var ákveðið að gefa leikskólanum það nafn. Þar sem húsnæði leikskólans hefur alltaf þótt lítið var ákveðið árið 2002 að taka í notkun eitt af einbýlishúsum í eigu hreppsins og nota undir starfsemi leikskólans. Barnaból er núna tveggja deilda leikskóli og heita deildirnar Stekkur og Sel.