Mat á leikskólastarfi hefur þann tilgang að réttindi leikskólabarna séu virt og að þau fái þá menntun og þjónustu sem þeim ber samkvæmt lögum um leikskóla. Matið skiptist í innra og ytra mat, unnið af kennurun, foreldrum og börnum leikskólans, og ytra mat, sem unnið er af utanaðkomandi aðila á vegum sveitarfélags og/eða menntamálaráðuneytis.

Innra mat

Á deildarfundum, deildarstjórafundum og starfsmannafundum fer fram mikilvægt mat sem nýtist til umbóta. Ekki er eingöngu hægt að meta starfið út frá mælistikum og eiga því þær umræður og sú ígrundun sem fram fer á þessum fundum mikilvægan þátt í endurmati og þróun skólastarfsins. Fundargerðir eru haldnar á þessum fundum.

Skólaárinu hjá okkur er skipt niður á fjórar annir og í lok hverrar annar er matsblað sem hver starfsmaður fyllir út fyrir sig. Þar er tekið fyrir hvað gekk vel og hvað gekk illa og hvers vegna. Einnig metum við hversu vel er unnið eftir námsviðunum, á sérstöku matblaði.

Við gerð ársáætlunar er ákveðið mat sem fer fram og þá helst varðandi hvernig gekk að halda fundi, starfsmannasamtöl og slíkt. Gott er að hafa matið svona eftir hverja önn því þá er hægt að grípa inní og breyta og bæta strax.

Við kaupum þjónustu frá Skólapúlsinum og sendir hann út kannanir til foreldra og kennara. Í mars ár hvert er framkvæmd foreldrakönun sem inniheldur 16 matsþætti þar sem hver matsþáttur inniheldur nokkrar spurningar.

Ytra mat

Mennta- og menningarmálaráðuneytið og eftir atvikum sveitarfélög bera ábyrgð á ytra mati leikskóla, samkvæmt sérstakri reglugerð. Ráðuneytið gerir áætlanir til þriggja ára um ytra mat, kannanir og úttektir, sem miða að því að veita upplýsingar um framkvæmd leikskólahalds. Fræðslunefnd sér um ytra mat fyrir hönd sveitarfélags og skólastjóri situr mánaðarlega fundi þar sem farið er yfir skólastafið.

Helstu niðurstöður starfsmannakönnunar sem lögð var fyrir starfsfólk í febrúar 2016.

Í heildina kom leikskólinn vel út, starfsfólk er ánægt í starfi og stafsandinn góður. Foreldrar eru virkir í starfinu og almenn ánægja með stjórnun. Fram kom að óánægja er með aðgengi okkar að sérfræðiþjónustu og er ljóst að það er eitthvað sem verður að laga. Einnig eru kennarar óánægðir með þá þjónustu/úrræði sem börn með sérþarfir fá. Hér að neðan má sjá hluta af niðurstöðunum.