Klæðnaður og leikskólakassinn

Daglega þarf barnið heilmikið af fötum á leikskólann. Á veturna þarf að hafa snjógalla, pollagalla, þykka peysu, góða húfu, vettlinga (nokkur pör), ullarsokka, stígvél eða kuldaskó. Á sumrin fá vettlingar, ullarsokkar og snjógallar oftast að fara inn í skáp og kuldaskór fá að víkja fyrir strigaskóm.

Í kassanum fyrir ofan hólf barnanna þurfa að vera aukaföt þar sem ýmis óhöpp geta átt sér stað í leikskólanum sem eru þess valdandi að fötin blotni. Þarna er líka gott að hafa auka vettlinga.

Við leikskólakennararnir mælum með að börnin klæðist þægilegum fötum í leikskólanum sem gott er að hreyfa sig í og sem má láta á sjá eftir leiki og starf í leikskólanum. Eins er gott ef fötin eru þannig að barnið geti bjargað sér sem mest sjálft við að girða upp um sig eða fara í skó. Eitt af því sem við leggjum áherslu á í leikskólastarfinu er að barnið læri að klæða sig sjálft og að reima, hneppa, renna eða smella. Það hjálpar til við að efla sjálfstæði og fínhreyfingar.