Leikur að læra er kennsluaðferð þar sem börnum á aldrinum tveggja til tíu ára eru kennd öll bókleg fög í gegnum leiki, hreyfingu og skynjun á skipulagðan, líflegan og árangursríkan hátt.

Leikur að læra er kennsluaðferð þar sem öll kennsla er hugsuð út frá þörfum barna til að leika og hreyfa sig og upplifa námsefnið í gegnum mismunandi skynfæri. Leikur að læra er að mestum hluta kennarastýrður leikur en þar sem frjálsi leikurinn fær sitt rými.

Leikur að læra skiptir áherslum sínum í tvo meginþætti, vitsmunalega og líkamlega. Vitsmunalegi þátturinn ákvarðast af þeim námsmarkmiðum sem kennarinn er að kenna. Hins vegar er það líkamlegi þátturinn sem eru þær mismunandi hreyfingar sem nemendur gera til að ferðast á milli í leikjum. Þessa hreyfimáta köllum við ferðamáta. Mikilvægt er að kennarar noti mismunandi ferðamáta í kennslunni til að nemendur fái sem fjölbreyttasta líkamlega þjálfun. Hjá ungum börnum er samhæfing einn mikilvægasti þátturinn sem þarf að þjálfa í hreyfifærni. Kennarinn þarf að vera meðvitaður um það á hvern hátt hann lætur nemendur sína hreyfa sig og leiðbeina þeim. Nemandi sem er með betri færni í að hoppa á öðrum fætinum en hinum þarf að æfa lakari fótinn meira þó að það sé honum tamara að hoppa á þeim betri. Mismunandi ferðmátar stuðla að góðri líkamsmeðvitund hjá börnum. Líkamsmeðvitund er mikilvæg, hún hefur m.a. áhrif á það hvernig við berum okkur. Leiðsögn kennarans og þekking hans á hreyfingum nemendanna gegnir lykilhlutverki í því að bæta hreyfifærni.

Það læra ekki allir á sama hátt og því fjölbreyttari sem kennlsuhættir eru því meiri líkur á að allir finni sína leið til að læra og þroskast sem best.

Við teljum þetta góða viðbót við það góða faglega starf sem nú þegar er unnið með í leikskólanum Barnaból. Fjölbreyttari kennsluhættir eru alltaf að því góða og sjáum við mikla möguleika í að nota þessa aðferð við með t.d. numicon, læsis og grænfánavinnunni okkar.

Á leið inn

Mjög mikilvægt í þessu öllu er foreldraverkefnið „á leið inn“ sem vekur foreldra til umhugsunar um þroska barna sinna og gefur þeim tækifæri til að fá betri innsýn inní leikskólastarfið og tækifæri til að vera virkur þátttakandi í leikskólagöngu barnsins.Texti staðgengils