Sigrún Grendal talmeinafræðingur kom til okkar með námskeið í að nota tjáskiptaleið sem nefnist Tákn með tali. Þessi tjáskiptaaðferð sem upphaflega var þróuð fyrir nemendur með mál- og þroskaröskun. Aðferðin byggir á einföldum hreyfitáknum sem notuð eru á markvissan hátt til stuðnings töluðu máli. Um er að ræða náttúruleg tákn svo sem bendingar, látbragð og svipbrigði að viðbættum táknum úr táknmáli heyrnarlausra. Áherslan er lögð á að tákna lykilorð hverrar setningar. TMT nýtist fólki á öllum aldri sem hefur tal- og málörðugleika af öðrum orsökum en heyrnarleysi.

Undanfarin ár hefur komið í ljós að aðferðin nýtist vel í fjölmenningarlegu umhverfi til dæmis í leik- og grunnskólum. Aðferðin er málörvandi fyrir öll ung börn og því óhætt að hvetja foreldra og kennara ungra barna að nota TMT sem skemmtilegt málörvunartæki sem um leið hjálpar þeim sérstaklega sem á þurfa að halda.

TMT er ávallt notað samhliða tali enda er markmiðið að kenna viðkomandi að tjá sig og skilja íslenskt talmál. Táknin gera málið sýnilegt og styðja þannig við töluðu orðin. Táknin vara lengur en orðin sem hverfa um leið og þau eru sögð. Það gefur viðkomandi lengri tíma til að skilja það sem sagt er. Táknin eru oftast myndræn og lýsandi og því auðskilin. TMT er í raun eðlilegt framhald af þeim tjáningarmáta sem flest ung börn hafa og ráða við löngu áður en þau hafa þroska til að mynda töluð orð.

Við erum byrjuð að læra táknin og munum við byrja á að taka ákveðnar athafnir dagsins fyrir hverju sinni. Við erum að æfa tákn sem við notum í matartímum. Auk tákna eins og að heilsast og kveðja.

Við munum hafa tákn vikunnar og setja hér inn sem og á töflu í forstofu.

Tákn vikunnar