Við leikskólann er starfandi foreldrafélag og allir foreldrar barna verða sjálfkrafa félagar um leið og barnið byrjar í leikskólanum.

Markmið félagsins er að efla tengsl foreldra og kennara, auka þátttöku foreldra í starfi leikskólans og tryggja velferð barnanna sem best.

Foreldrafélagið styður með ýmsu móti við leikskólann. Hefð er fyrir því að foreldrafélagið standi fyrir grillveislu að sumri, jólaföndri fyrir börn og foreldra og öskudagsballi. Einnig hefur foreldrafélagið styrkt leikskólann til kaupa á ýmsum kennslugögnum og leikföngum.

Árgjald félagsins er kr. 4000 fyrir hvert barn og er það innheimt 1x á ári með leikskólagjaldinu.

Aðalfundur félagsins er haldinn að hausti ár hvert þar sem farið er yfir skýrslu stjórnar og ný stjórn kjörin.

Samþykktir

foreldrafélags Leikskólans Barnabóls

  • 1. gr.Félagið heitir Foreldrafélag Leikskólans Barnabóls. Lögheimili þess er það sama og hjá leikskólanum á Þórshöfn.
  • 2. gr.Tilgangur félagsins er að:

1.Vera samstarfsvettvangur foreldra leikskólabarna.

2.Stuðla að góðum skólaanda m.a. með því að vinna að öflugu félagslífi í leikskólanum.

3.Stuðla að auknum kynnum barna, foreldra og starfsmanna skólans.

4.Koma á framfæri sjónarmiðum og hugmyndum foreldra varðandi leikskólastarfið til skólastjórnenda og foreldraráðs.

Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að:

Skipuleggja viðburði í samstarfi við leikskólann.

Veita leikskólanum lið í að bæta aðstæður til leiks og náms.

Sitja fundi með foreldraráði og skólastjórnendum um skólastarfið.

  • 3. gr.Við innritun barns í leikskólann verða foreldrar sjálfkrafa félagsmenn foreldrafélagsins. Þeir foreldrar sem ekki vilja vera félagsmenn þurfa að koma beiðni um úrsögn skriflega til stjórnar félagsins eða leikskólastjóra.
  • 4. gr.Starfstímabil félagsins er leikskólaárið, frá 1. ágúst til 31. júlí ár hvert. Reikningsár félagsins er það sama.
  • 5. gr.Aðalfundur skal haldinn að hausti ár hvert. Aðalfund skal boða meða a.m.k. viku fyrirvara með auglýsingu í leikskóla eða tilkynningu til allra foreldra. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.
  • 6. gr.Á dagskrá aðalfundar er
  • 1.Kosning fundarstjóra og fundarritara
  • 2.Skýrsla stjórnar lögð fram
  • 3.Ársreikningar til samþykktar
  • 4.Ákvörðun um árgjöld
  • 5.Lagabreytingar
  • 6.Kosning stjórnar
  • 7.Önnur mál
  • 7. gr.Í stjórn félagsins eiga sæti fimm stjórnarmenn, sem skipta með sér verkum þannig:
  • 1.Formaður
  • 2.Ritari
  • 3.Gjaldkeri
  • 4.Tveir meðstjórnendur

Stjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda. Formaður boðar til funda.Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar.

Kjörtímabil stjórnar er tvö ár og skulu þrír stjórnarmenn kosnir á oddatöluárum, en tveir á árum sem enda jafnri tölu.

  • 8. gr.Ákvörðun um félagsgjöld og fjármögnum starfsemi félagsins skal tekin fyrir á aðalfundi.
  • 9. gr.Starfshættir foreldrafélagsins.
  • 1.Stjórn foreldrafélagsins heldur fundi reglulega, að jafnaði einu sinni í mánuði.
  • 2.Stjórn félagsins skal halda félagafundi 1 - 2 á skólaári sem eru opnir öllum félagsmönnum
  • 3.Stjórn foreldrafélags starfar náið með foreldraráði skólans og fundar með þeim eftir þörfum.
  • 4.Fulltrúi/fulltrúar foreldrafélags og foreldraráð funda með skólastjórnendum a.m.k. tvisvar á ári.
  • 5.Aðrir samráðsfundir eru haldnir eftir þörfum.
  • 10. gr.Önnur ákvæði
  • a.Rekstrarafgangi félagsins skal varið til starfsemi í þágu barna skólans.
  • b.Lögum þessum er ekki breytt nema með a.m.k. samþykki 2/3 fundarmanna á löglega boðuðum aðalfundi.
  • 11. gr.Slit félagsins
  • a.Ákvörðun um slit félagsins skal tekin á aðalfundi og skal tillaga þess efnis tilgreind í aðalfundarboði sérstaklega.
  • b.Við slit skulu eignir félagsins renna til kaupa á leiktækjum fyrir leikskólann.
  • c.Fundargerðabækur og önnur gögn um starfsemi félagsins skulu send Héraðsskjalasafni eða Þjóðskjalasafni.

Þannig samþykkt á aðalfundi félagsins 22. október 2018